Lögverndarsjóður náttúru og umhverfis var stofnaður af nokkrum náttúruverndarsamtökum árið 2002 í því skyni að veita fjárhagsstuðning til að fá úrlausn vegna lögfræðilegra álitamála er snerta náttúru- og umhverfisvernd.
Markmið sjóðsins er að styðja fjárhagslega þá aðila sem vilja fá úrlausn í lögfræðilegum álitamálum sem varða almenna hagsmuni um verndun náttúru og umhverfis og safna og varðveita fé í þessum tilgangi. Sjóðurinn stuðlar að því að jafna aðstöðu ólíkra aðila í samfélaginu til að fá niðurstöðu í slíkum málum. Þess ber að geta að sjóðurinn sjálfur getur ekki átt beina aðild að málarekstri.
Fuglavernd, Landvernd, NAUST - Náttúruverndarsamtök Austurlands, og SUNN - Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi standa að baki sjóðnum. Þessi félög og aðrir velunnarar lögðu sjóðnum til ákveðið fjármagn á sínum tíma og hefur sjóðurinn þegar stutt nokkur verkefni með því fé og frjálsum framlögum.
Lögverndarsjóður hefur þann háttinn á við styrkveitingar að ef mál vinnst fyrir dómi og gagnaðili er dæmdur til að greiða málskostnað þá endurgreiðir styrkþegi styrkinn til sjóðsins. Sama á við ef gagnaðili er dæmdur til að greiða skaðabætur, þá verði styrkurinn einnig endurgreiddur til sjóðsins.
Lögverndarsjóður er skráður á Almannaheillaskrá og njóta aðilar sem leggja fé í sjóðinn því skattafrádráttar. Fyrir lögaðila getur frádrátturinn numið allt að 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem framlag er veitt. Einstaklingar geta fengið skattfrádrátt (lækkun á tekjuskattsstofni) allt að 350.000 kr. á ári, vegna framlaga til sjóðsins. Farið er með framlög sem trúnaðarmál á milli styrkveitanda og sjóðsins sé þess óskað.
Reikningsnúmer: 0357-13-000219
Kennitala: 630802-2370.